Póst- og fjarskiptastofnun hefur á síðustu níu mánuðum heimilað Íslandspósti að hækka gjöld sín fyrir bréfapóst, sem ríkisfyrirtækið hefur einkarétt á að dreifa. Hækkunin hefur verið í öllum flokkum en mest hefur hækkunin verið í magnpósti B, en þar hefur hækkunin verið 26,4%.

Þessar hækkanir póstburðagjalda koma á sama tíma og Póst- og fjarskiptastofnun heimilar Íslandspósti að draga verulega úr þjónustu sinni í dreifbýli og dreifa pósti aðeins annan hvern virkan dag. Þetta kemur fram í nýjum pistli frá Félagi atvinnurekenda.

FA vekur sérstaka athygli á því að þessar gjaldskrárhækkanir séu samþykktar þrátt fyrir að ekki sé enn útkljáð hvort fyrirtækið hafi niðurgreitt gífurlegar fjárfestingar sínar og umsvif í óskyldum rekstri,  til dæmis prentsmiðjurekstri og gagnageymslu, með tekjum af einkaréttinum. FA segir að Íslandspóstur, sem sé að fullu í eigu og á ábyrgð ríkisins standa í æ víðtækari samkeppni við einkafyrirtæki á ýmsum sviðum.

Raunkostnaður ekki þekktur

Samkvæmt lögum á gjaldskrá að taka mið af raunkostnaði að viðbætti hæfilegri álagningu. Raunkostnaður hjá Íslandspósti er hins vegar óþekktur, eins og kemur skýrt fram í síðustu ákvörðun um gjaldskrárhækkun. Póst- og fjarskiptastofnun hafi ekki samþykkt kostnaðargreiningu og bókhaldslegan aðskilnað Íslandspósts fyrir árin 2013 og 2014 og að hluta til sé deilt um alþjónustubygði félagsins, en málið sé nú til meðferðar hjá PFS. Stofnunin hefur einnig sagt að margt bendi til þess að samkeppnisrekstur sé niðurgreiddur með einkaréttarstarfsemi.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda segir að það sé með ólíkindum að stofnunin skuli ítrekað samþykkja tuga prósenta gjaldskrárhækkanir þrátt fyrir að vita í raun ekki kostnaðargrunn fyrirtækisins eða hver afkoma einstakra þjónustuþátta þess er:

„„Þetta er óþolandi staða fyrir almenning og fyrirtæki í landinu sem hafa engan annan að skipta við þegar kemur að útburði bréfapósts og þetta er líka óþolandi fyrir keppinauta Íslandspósts á mörgum sviðum atvinnulífsins. Fjöldi meintra samkeppnisbrota fyrirtækisins hefur nú verið í rannsókn hjá samkeppnisyfirvöldum í allt að sjö ár án niðurstöðu.““