Fyrirhuguðum gjaldskrárhækkunum Orkuveitu Reykjavíkur hefur verið frestað um mánuð og taka gildi 1. nóvember en ekki 1. október . Er það gert vegna athugasemda Orkustofnunnar en breytingar á gjaldskrá á dreifiveitum skal tilkynna til stofnunarinnar tveimur mánuðum áður en hækkanir taka gildi.

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur tilkynnti um gjaldskrárhækkanir eftir stjórnarfund þann 27. ágúst síðastliðinn og áttu þær að taka gildi 1. október næstkomandi, um fimm vikum eftir ákvörðun stjórnarinnar.

Lárus Ólafsson, yfirlögfræðingur Orkustofnunar, segir í samtali við Viðskiptablaðið að tilkynning um frestun gjaldskrárhækkunar hafi borist Orkustofnun. Í fréttatilkynningu frá Orkustofnun segir að hækkanir sem snúa að dreifiveitum þurfi að tilkynna til stofnunarinnar og sé háð samþykki hennar.

Frestun á gjaldskrárhækkun nær því að minnsta kosti til þess hluta hækkunarinnar sem snýr að dreifiveitum, en þar nemur hækkunin 40%. Ekki hefur náðst í forsvarsmenn Orkuveitunar en óvíst er hvort frestunin nái eingöngu til dreifiveita eða allra hækkana.

Gjaldskrárhækkun á hita og rafmagni er ekki háð samþykki Orkustofnunar.