Hækkun vísitölu neysluverðs af völdum gjaldskrárhækkun Orkuveitunnar mun á næstu mánuðum hægja á hjöðnun verðbólgunnar en ekki koma í veg fyrir hana, að mati Greiningar Íslandsbanka. Í morgunkorni Greiningarinnar segir að enn megi reikna með því að verðbólgan nái verðbólgumarkmiði Seðlabankans snemma á næsta ári. Markmið Seðlabankans er 2,5% verðbólga.

Bein áhrif hækkunarinnar á verðbólgu eru 0,39%. Auk beinu áhrifanna má gera ráð fyrir talsverðum óbeinum áhrifum. Greining Íslandsbanka segir að aðrir orkusalar en Orkuveitan séu líklegir til að grípa gæsina og hækka orkuverð til notenda utan sölusvæðis Orkuveitunnar. Þær verðui þó trúlega hóflegri, enda staða Orkuveitunnar óvenju slæm meðal orkufyrirtækja.

„Ekki má heldur gleyma því að raforka er allstór kostnaðarliður hjá mörgum þeim fyrirtækjum sem framleiða innlendar neysluvörur og selja almenningi þjónustu. Verulegur hluti þeirra á vart aðra kosti en að ýta a.m.k. hluta þessarar kostnaðarhækkunar út í verðlagið, þótt erfitt sé að slá mati á hversu mikil þau áhrif muni verða á heildina litið,“ segir í morgunkorninu.

Jákvæð túlkun á skuldabréfamarkaði

Skuldabréfamarkaður túlkaði fréttir af hækkun gjaldskrár sem jákvæð tíðindi fyrir íbúðabréf. Við því var að búast segir Greining Íslandsbanka. Kaupáhugi hefur ráðið ríkjum á verðtryggða hluta markaðarins og krafa lengri íbúðabréfa lækkað um 11-15 punkta í morgun. Krafa lengri flokkanna er nú á bilinu 3,03-3,12%. Til samanburðar lá krafan á bilinu 3,83-3,89% í upphafi árs.

Þá hefur veriðbólguálag þokast upp á við enda hafa óverulegar breytingar orðið á kröfu ríkisbréfa, segir í greiningunni. Álagið er nú 1,7% til þriggja ára, en 2,4% til 9 ára.