Starfshópur um Sundabraut á vegum ríkisins og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hefur lokið störfum og skilað skýrslu til samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Niðurstöður starfshópsins eru þær að fýsilegasti kosturinn sé að Sundabraut verði lögð sem gjaldskyld jarðgöng.

„Sundabraut hefur verið til skoðunar um árabil og í skýrslunni eru nokkrir valkostir vegnir og metnir. Í niðurstöðum hópsins eru tveir valkostir taldir koma til greina; jarðgöng yfir í Gufunes og lágbrú sem þverar hafnarsvæðið við Kleppsvík. Hvorki botngöng né hábrú yfir Kleppsvík voru taldir fýsilegir kostir," segir í fréttinni.

„Starfshópurinn fór yfir öll fyrirliggjandi gögn um framkvæmdina og lét uppfæra kostnaðaráætlanir og umferðaspár. Erfiðasti og dýrasti hluti mögulegrar Sundabrautar er þverun Kleppsvíkur. Í Kleppsvík er nú umfangsmikil starfsemi Sundahafnar, sem er megingátt Íslands í vöruflutningum á sjó."

Jarðgögn í Gufunes

Starfshópurinn telur jarðgögn eina raunhæfa möguleikann fyrir útfærslu Sundabrautar miðað við gildandi skipulag, stefnu stjórnvalda og framtíðaráform Faxaflóahafna og skipafélaganna um hafnarsvæðið. Jarðgöng hafi mjög lítil sem engin áhrif á starfsemi og möguleika á framtíðarþróun Sundahafnar.

Í skýrslunni kemur fram að samkvæmt kostnaðarútreikningum væru jarðgöng metin umtalsvert dýrari en aðrar lausnir auk þess sem þau eru talin munu laða að sér minni umferð. Á móti komi að umferðarspár bendi til að með tilkomu þeirra gæti dregið úr umferð á vestari hluta Sæbrautar sem getur til lengri tíma leitt af sér minni fjárfestingarþörf þar og bætt umhverfisgæði.

Lágbrú yfir Kleppsvík

„Af valkostum um að þvera Kleppsvík telur starfshópurinn aðeins koma til greina að lágbrú verði fyrir valinu. Sú leið væri ódýrasta lausnin auk þess sem hún er sennilega sú besta fyrir aðra samgöngumáta. Lágbrú myndi laða að sér mesta umferð og bæta aðgengi annarra ferðamáta verulega," segir í skýrslunni.

„Á hinn bóginn myndi sú framkvæmd kalla á að framtíðarhugmyndir um skipulag hafnarstarfsemi við Sundahöfn yrðu teknar til gagngerrar endurskoðunar sem þýða minnkað umfang, samnýtingu flutningafélaga á uppskipunaraðstöðu og hugsanlega flutning hluta starfseminnar á önnur hafnarsvæði. Engar greiningar væru til um heildarkostnað slíkra aðgerða né þjóðhagsleg eða umhverfisleg áhrif."

Tveir kostir skoðaðir nánar

Starfshópurinn leggur til í skýrslu sinni að unnið verði að frekari undirbúningi Sundabrautar í jarðgöngum en leitað verði leiða til að lækka kostnað við göngin. Hópurinn leggur einnig til að lágbrú verði metin betur, og sérstaklega m.t.t. áhrifa á höfnina auk umhverfis- og skipulagstengdra mála. Að þeirri vinnu lokinni verði kostirnir tveir, jarðgöng og lágbrú, bornir saman og fýsilegri kosturinn festur í skipulag sem framtíðarlausn.

Í skýrslunni segir að bygging Sundabrautar hafi jafnan verið rædd sem ákjósanlegt samvinnuverkefni þar sem einkaaðilar tækju að sér fjármögnun framkvæmda. Í slíku samstarfi yrði samið um framkvæmdina við félag sem sér um uppbyggingu, rekstur og viðhald mannvirkja, og innheimtir síðan gjöld af vegfarendum til að endurheimta kostnað. Bent er á að svipað fyrirkomulag við gerð Hvalfjarðarganga hafi reynst vel en það hafi vegfarendur haft val um aðra leið án greiðslu með því að aka fyrir Hvalfjörð.