Heildarfjöldi framteljenda við álagningu árið 2005 var 234.437 og hafði þeim fjölgað um 4.772 einstaklinga, eða 2,1% frá fyrra ári. Gjaldstofn tekjuskatts og útsvars nam 526,8 milljörðum króna og hafði vaxið um 9,0% frá fyrra ári. Framteljendum með tekjur fjölgaði um 1,9% milli ára og gjaldstofninn hækkaði að meðaltali um 7,0 % á mann.

Samanlögð álagning tekjuskatta og útsvars nemur 145,2 milljörðum króna og hækkar um 12,3% frá fyrra ári. Álagðir tekjuskattar til ríkissjóðs skiptast í almennan og sérstakan tekjuskatt annars vegar og fjármagnstekjuskatt hins vegar en útsvarið er tekjustofn sveitarfélaga.

Tæplega 158 þúsund framteljendur greiða samtals 67,1 milljarð króna í almennan tekjuskatt. Þetta eru ⅔ hlutar framteljenda. Skattgreiðsla á hvern gjaldanda hefur vaxið um 8,2% milli ára. Rétt er að benda á að mun meira er um áætlanir á gjaldendur í ár en í fyrra, sem veldur nokkurri umframhækkun á álagningunni. Að áætlunum slepptum hækkar skattgreiðsla á hvern gjaldanda heldur minna, eða um 6,8%. Meðalskatthlutfall almenns tekjuskatts er 12,5% að teknu tilliti til persónuafsláttar og áætlana.

Útsvar til sveitarfélaga nemur alls 69 milljörðum króna og hækkar um 9,5% milli ára. Gjaldendur útsvars eru 226.896, eða nær 97% allra á grunnskrá framteljenda. Álagt útsvar á hvern gjaldanda hækkar um 7,1% milli ára. Meðalútsvar á tekjur síðasta árs nemur 13,1%.