Engin breyting er fyrirhuguð á gjaldtöku í Hvalfjarðagöngum þrátt fyrir breytta stöðu á lánum vegna gengisáhrifa.

„Við munum halda að okkur höndum í gjaldskrármálum eins lengi og fært er,” segir Gísli Gíslason, stjórnarformaður Spalar.

„Ef þróun umferðar verður svipuð og hún var nú í desember þá eigum við að vera í góðum málum, að því gefnu að menn nái tökum á efnahagsástandinu.”

Nokkur samdráttur var í umferð um Hvalfjarðargöng á síðasta ári. Fór umferðin úr um 2,2 milljónum bíla á metárinu 2007 í liðlega 1,9 milljónir bíla á árinu 2008. Segir Gísli að farið hafi að draga talsvert úr umferð í apríl, eða að jafnaði um 4,5% á mánuði. Í desember var þó minni samdráttur eða um 2,6%.

Alls hafa um 15 milljónir ökutækja farið um Hvalfjarðargöng á tíu árum eða frá því þau voru opnuð sumarið 1998. Umferðin jókst jafnt og þétt ár frá ári en í efnahagsþrengingunum nú fækkar bílum á þjóðvegum landsins og þar með í göngunum.

Gísli segir mikilvægt að þrátt fyrir efnahagsástandið, þá verði vinnu haldið áfram við undirbúning að gerð nýrra jarðganga undir Hvalfjörðinn.

„Við unnum á síðasta ári alla nauðsynlega undirbúningsvinnu fyrir hönnun og rannsóknir. Við skiluðum þeim gögnum til Vegagerðarinnar og samgönguráðherra. Boltinn er því að segja má hjá þeim. Að okkar mati er þó engin spurning að við teljum skynsamlegt að menn leggi peninga í hönnun nýrra Hvalfjarðarganga og sömu leiðis í tvöföldun á veginum um Kjalarnes. Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir ríkið núna að sýna þá fyrirhyggju að hanna og skipuleggja framkvæmdir, þó ekki verði vaðið af stað í framkvæmdir fyrr en það er talið tímabært.”