Á fundi um vegakerfið og umferðaröryggi sem haldinn var í gær sagði Jón Gunnarsson, samgönguráðherra að til að taka á vanda vegakerfisins kæmi til greina að taka gjald á leiðunum frá höfuðborgarsvæðinu.

Vantar að brúa 10 milljarða bil

Kom þar meðal annars fram að tæpa 10 milljarða vanti á þessu ári til að fullfjármagna framkvæmdir á samgönguáætlun og væri veggjald ein leiðin sem væri til skoðunar til að brúa það bil af því er segir í frétt RÚV .

„Mín skoðun er sú að við þurfum að hugsa eitthvað í þá átt ef við ætlum að ná í skottið á okkur í þessum efnum," segir Jón, en á fundinum var rætt um mikla fjölgun alvarlegra slysa hjá erlendum ferðamönnum.

80% fjölgun alvarlegra slysa á ferðamönnum

Létust tveir þeirra í umferðinni í fyrra, sem reyndar er fækkun frá 5 á árinu áður, en hins vegar slösuðust 47 alvarlega, sem er fjölgun um 80% frá þeim 26 sem slösuðust árið áður.

„Að öðru leyti, ef við notum aðeins það framlag sem verður fært að setja úr ríkissjóði í þennan mikilvæga málaflokk, það er víða togast á um fé í því, heilbrigðismálin, menntamálin og svo framvegis, þá munum við þurfa að fara einhverja slíka leið.

Í þessum málaflokki höfum við verið að horfa til þess hvernig við getum farið í stórátak á þessum vettvangi.

Leiðir inn og út af höfuðborgarsvæðinu

Og ég hef skipað starfshóp sem mun skila fyrstu niðurstöðu fyrir vorið þar sem við kortleggjum þessar leiðir inn og út af höfuðborgarsvæðinu, út á Reykjanes, Suðurland og Vesturland, mað þá fullnaðarfrágang á umferðarmannvirkjum upp í Borgarnes, austur fyrir Selfoss og til Keflavíkurflugstöðvar“

Víðir Reynisson, verkefnastjóri hjá Lögreglunni á Suðurlandi sagði lögregluna telja það óásættanlegt hversu margir lendi í umferðarslysum á þessu svæði.

Notar samlíkingu frá snjóflóðunum 1995

„Eftir snjóflóðin 1995 voru þessi mál skoðuð og það var tekin ákvörðun um að það væri óásættanlegt ef einhver létist í snjóflóði heima hjá sér ef líkurnar væru meiri en einn á móti 10.000," segir Víðir.

„Og ég kalla eftir því að við horfum á þessi mál, öryggi ferðamanna og öryggi í samgöngum, með svipuðum hætti. Það er að segja að við setjum okkur markmið, hvað sé ásættanleg áhætta við að vera í umferðinni og hvað er óásættanlegt og við bregðumst við samkvæmt því.“