Hæstiréttur staðfesti í dag dóm Héraðsdóm Suðurlands um lögbann á innheimtu Landeigendafélags Geysis á aðgangseyri við hverinn fræga.

Í dómi Hæstaréttar kemur fram að landeigendurnir hafi brotið á réttindum ríkisins sem meðeiganda með því að innheimta gjaldið, en dómur héraðsdóms féll í október á síðasta ári og var áfrýjað.

Landeigendafélag Geysis þarf jafnframt að greiða íslenska ríkinu eina milljón í málskostnað fyrir Hæstarétti og bætist það við þær 800 þúsund krónur sem félagið þurfti að greiða ríkinu í málskostnað í héraðsdómi.

Í kjölfar dómsins sendi landeigendafélagið frá sér tilkynningu þar sem þeir lýsa yfir vonbrigðum með úrskurð Hæstaréttar og segja hann á engan hátt leysa úr þeim ágreiningi sem verið hefur á milli landeigenda og ríkisins um áratugaskeið.

,,Landeigendur hafa ítrekað leitað eftir samstarfi við ríkið, meðeiganda sinn, um verndun og uppbyggingu svæðisins. Fyrir liggur verðlaunatillaga um hönnun og uppbyggingu svæðisins sem miðar að dreifa álagi og vernda viðkvæma náttúru hverasvæðisins. Landeigendur hafa einnig leitað eftir því semja við Umhverfisstofnun um verndun á náttúru svæðisins sem er einstök á heimsvísu," segir meðal annars í yfirlýsingunni.

,,Allt frumkvæði að framtíðaruppbyggingu Geysissvæðisins hefur komið frá landeigendum og til þess að leiða ágreininginn til lykta hafa landeigendur boðist til að kaupa hlut ríkisins og hafa tryggt fjármögnun kaupanna sem og framkvæmdir í samræmi við fyrrnefnda verðlaunatillögu."