Eftir dóm Hæstaréttar í gær þar sem A1988 hf., áður H.f. Eimskipafélag Íslands, var dæmt til greiðslu 7,4 milljarða króna í tekjuskatt þá blasir gjaldþrot við félaginu.

Árið 2009 gerði félagið nauðasamning við kröfuhafa sína. samningurinn var staðfestur í Héraðsdómi Reykjavíkur 28. ágúst 2009. Með nauðasamningi félagsins var ýmis rekstur þess seldur og hluti af skuldum félagsins gefinn eftir. Námu eftirgefnar skuldir 90,9 milljörðum króna. Félagið er í dag í eigu kröfuhafa.

Litlar eignir

Í ársreikningi félagsins fyrir árið 2014 er fjallað um afleiðingar þess ef félagið yrði dæmt til að greiða skattanna, en mat stjórnenda var að ekki kæmi til greiðslu. Í skýringu 7 í ársreikningnum segir að félagið geti ekki haldið óbreyttum rekstri áfram ef það verður dæmt til greiðslu skattanna.

Þetta er augljóst þegar efnahagur félagsins er skoður. Í lok reikningsársins, 31.október 2014, nemur eigið fé aðeins 240 þúsund evrum, eða tæpar 34 milljónir. Athygli vekur að rekstrartap félagsins var tæpar 200 þúsund evra árið 2014, eða 32 milljónir króna.

Á hlut í Eimskip, en þó ekki

Þegar nauðsamningar Hf. Eimskipafélags Íslands var gerður, þá var 4,2% hlutur í nýja Eimskip haldið fyrir utan úthlutun til kröfuhafa líkt og greint er frá í skýringu 15 í ársreikningi Eimskip fyrir árið 2012. Sá hlutur var eign skráð eign A1988 hf.

Þessi bréf voru hugsuð sem framlag nýja félagsins til óframkominna krafna. Sá hluti bréfanna sem sem ekki var nýttur á móti þessum óframkomnu kröfum skyldi síðan renna aftur til félagsins og verða þá ígildi eigin bréfa.

Árið 2014 rann stærstur hluti þessarar bréfa til baka til Eimskipa. A1988 hf. er enn skráður eigandi 0,5% hlutar, sem er 233 milljóna virði samkvæmt gengi gærdagsins.

Ekki er ljóst hvort skilyrði eru til þess að ríkissjóður geti náð þessum bréfum upp í kröfu sína. En jafnvel þó svo væri fær ríkið aðeins brot af kröfu sinni greitt.