Ferðaskrifstofur Travelco samstæðunnar, áður Primera Travel, töpuðu fimm milljörðum króna á falli Primera Air og allt eigið félagsins þurrkast þar með út að sögn Andra Más Ingólfssonar, eiganda félagsins. Því hafi hlutafjáraukning hjá ferðaskrifstofunum verið nauðsynleg. Greint var frá því í tilkynningu til fjölmiðla 13. október að  Travelco  hefði keypt ferðaskrifstofur Primera  Travel  Group og tekið yfir skuldir við Arion banka og leggja ætti félaginu til um milljarð króna í nýtt hlutafé sem hafði að stórum hluta þegar verið greitt. Rekstur allra fyrirtækja hafi verið fluttur undir  Travelco Nordic A/S í Danmörku, sem hét áður Primera Travel.

Veðsetti heimili fjölskyldunnar

„Til að geta reitt fram nýtt eigið fé, þá neyddist ég til að veðsetja húseign fjölskyldunnar, þannig að þetta voru erfið spor,” segir Andri Már. Samkvæmt gögnum sem send voru inn til fyrirtækjaskrár 1. október, var Travelco stofnað út frá nafnabreytingu félags í eigu Logos fyrir helgina, áður en Primera Air féll.

Andri Már segir að hann hafi viljað hafa félagið tilbúið ef ekki fengist frekari lánafyrirgreiðsla frá bankanum. Í gögnum sem send voru inn til fyrirtækjaskrár kemur fram að hlutafjáraukning í Travelco upp á 700 milljónir króna hafi verið lögð til á stjórnarfundi Travelco 1. október. 500 milljónir ætti að greiða með peningum en 200 milljónir króna með skuldajöfnun vegna láns frá Andra Má, frá föstudeginum 28. september. Andri Már segir að þá hafi hann lánað ferðaskrifstofunni Bravo Tours í Danmörku, sem er innan Travelco samstæðunnar, til að tryggja rekstur félagsins. „Þetta fé var greitt beint til Bravo Tours, sem hefur verið í minni eigu síðustu 12 árin,” segir Andri Már.

Andri Már segir að Arion banki hafi þrýst mjög á um að ferðaskrifstofur samstæðunnar yrðu færðar í nýtt félag þegar ljóst var að Primera Air færi í þrot. Þá telur Andri Már að Primera Air hefði lifað ef Arion banki hefði veitt flugfélaginu brúarlán líkt og til stóð.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .