*

mánudagur, 26. júlí 2021
Innlent 17. maí 2013 10:04

Gjaldþrot BM Vallár líkast andláti ættingja

Þorsteinn Víglundsson segist hafa orðið fyrir áfalli þegar BM Vallá var úrskurðað gjaldþrota árið 2010.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Gjaldþrot BM Vallár var erfitt áfall sem erfitt var að fara í gegnum. Það var líkast því þegar nákominn ættingi deyr. Þetta segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins. Hann er í viðtali í helgarblaði DV þar sem hann fer yfir störf sín. Hann ræðir þar m.a. um gjaldþrot BM Vallár árið 2010.

Þorsteinn segir frá því að hann starfaði hjá Kaupþingi í Lúxemborg á árunum 2000 til 2002 þegar hann sneri heim. 

„Ég kom heim 2002 og hóf störf hjá BM Vallá og starfaði við hlið föður míns fram til ársins 2010 þegar félagið fór í þrot. Þetta var tími þar sem ég reyndi margt. Það gekk mikið á í byggingageiranum á þessum árum. Þegar ég kom til starfa hjá fyrirtækinu og fram til 2007 sjöfaldaðist umfang fyrirtækisins, annars vegar með sameiningu við önnur fyrirtæki og hins vegar vegna uppgangs í byggingaiðnaðinum. Svo var eins og það væri keyrt á vegg í ársbyrjun 2008 og það komu nær engin ný verkefni inn. Maður gat nánast talið á fingrum sér þau verkefni sem voru í gangi. Á þessum tveimur árum dróst starfsemin saman um 70 prósent. Starfsmenn voru liðlega fimm hundruð haustið 2007 þegar þeir voru flestir en voru orðnir innan við tvö hundruð þegar yfir lauk,“ segir Þorsteinn.

Um líðan sína þegar fyrirtækið fór í þrot segir hann:

„Það er gríðarlegt áfall að fara í gegnum gjaldþrot. Þetta var mjög erfitt en var þó sýnu erfiðara fyrir föður minn en mig því hann hafði varið allri sinni starfsævi hjá BM Vallá. Þetta var eins og að missa nákominn ættingja og þetta var gríðarlegt áfall sem var erfitt að fara í gegnum.“