*

laugardagur, 20. júlí 2019
Innlent 7. júní 2018 15:37

Gjaldþrot gervimanns á hálfan milljarð

Gjaldþrotaskipti hafa verið gerð á Útsæ ehf. sem nefnt var í rannsóknarskýrslu Alþingis. Aldrei náðst í úkraínska stjórnarmenn.

Ritstjórn
Krafa Byr á hendur Útsæ ehf. var ein stærsta krafa sparisjóðsins gamla.

Gjaldþrotaskipti hafa verið gerð á félaginu Útsær ehf. sem nefnt var í rannsóknarskýrslu Alþingis undir liðnum Gervimaður útlönd.

Samanlagðar skuldir félagsins námu rúmlega 589 milljónum króna, en félagið var langstærsti kröfufinn sem gamli sparisjóðurinn Byr átti í. Félagið er skráð í skýrslunni sem eitt þeirra sem hafi verið 100 prósent í eigu erlendra aðila árið 2006 og 2007. Hugtakið Gervimaður útlönd er notað sem tákn úr þjóðskrá fyrir þá eigendur í íslenskum fyrirtækjum sem eru í eigu óþekktra erlendra aðila.

Jóhann Karl Hermannsson skiptastjóri í búinu segir að félagið hafi verið með þrjá lánasamninga í japönskum jenum, Bandaríkjadölum og krónum við sparisjóðinn Byr. Eina tryggingin fyrir þessum lánum hafi svo verið hlutir í gamla MP banka, en gjalddagi samninganna hafi verið 2010.

Þeir hafi svo gjaldfallið allir, ekkert verið greitt, og gengið hafi verið að tryggingunum, hlutunum í MP banka, sem var svo ráðstafað inn á skuldina 2011. Krafa Byr fór svo inn í Íslandsbanka við sameiningu félaganna en um var að ræða eina af stærstu kröfum sparisjóðsins. Félagið átti svo 45% hlut í fjárfestingarfélaginu Vatnaskil, sem var gert upp í lok síðasta sumar.

Skráðir stjórnarmenn í Útsæi hafi verið erlendir aðilar, skráðir í Úkraínu sem Jóhann Karl segir aldrei hafi náðst í við skiptalokin.

Helsta eign félagsins var 45% hlutur í fjárfestingarfélaginu Vatnaskil, en það félag var eitt þeirra sem keyptu stofnbréf í Sparisjóði Hafnarfjarðar snemma árs 2006, sem loks sameinaðist Sparisjóði Vélstjóra og tók upp nafnið Byr við það.