*

miðvikudagur, 19. febrúar 2020
Innlent 10. júlí 2019 18:29

Gjaldþrot Grísagarðs nam 1,1 milljarði

Stjörnugrís sagt hafa „slátrað allri samkeppni“ í orðsins fyllstu með slátrun gylta áður en sameining var felld úr gildi.

Ritstjórn

Gengið hefur verið frá skiptum á þrotabúi grísabússins Grísagarðs ehf., sem sent var í gjaldþrotaskipti í október 2010. Skiptum á búinu lauk 27. júní síðastliðið en samtals voru lýstar kröfur í búið 1.113.947.871 krónur.

Gunnar Ásgeir Gunnarsson var helmingseigandi félagsins, Karvel Lindberg Karvelsson átti 17% en Sparisjóður Mýrarsýslu og Fóðurblandan hf. áttu sín hvor 15% samkvæmt ársreikningi grísabúsins frá árinu 2007. Þá var félagið að tapa 33,2 milljónum sem var helmingslækkun frá 65,6 milljóna króna tapi ársins áður.

Eigið fé félagsins var þá neikvætt um 161,6 milljónir en skuldirnar námu 640,1 milljón króna, og hafði staðan versnað nokkuð frá árinu 2006, þegar eigið fé var 128,4 milljónir og skuldirnar 625,6 milljónir.

Fengu heimild til sameiningar sem síðan var felld úr gildi

Svínabú félagsins voru í kjölfar gjaldþrotsins tekin yfir af Arion banka sem um þessar mundir tók einnig yfir eignir svínabúsins Brautarholts. Stofnaði bankinn rekstrarfélögin Braut ehf utan um reksturinn að búinu að Brautarholti á Kjalarnesi og hins vegar svínabúa og LS2 ehf. utan um eignir Grísagarðs að Hýrumel og Stafholtsveggjum í Borgarfirði.

Arion banki fékk svo í ársbyrjun 2011 heimild Samkeppniseftirlitsins til að sameina bæði rekstrarfélögin helsta keppinautnum Stjörnugrís, þrátt fyrir mat sitt á að samruninn myndi styrkja markaðsráðandi stöðu á svínamarkaðnum, á grundvelli undanþágu um fyrirtæki á fallandi fæti.

Þeirri ákvörðun var hins vegar skotið til áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem felldi í júlí sama ár úr gildi ákvörðun Samkeppniseftirlitsins á þeim grunni að ekki þótti sannað að skilyrði félags á fallandi fæti ættu við og vísaði málinu aftur til stofnunarinnar sem tók þá undir með áfrýjunarnefndinni og ógilti samrunann.

Í árslok 2012 staðfesti loks Hæstiréttur, eftir sams konar úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur í apríl sama ár, að umræddur samruni raskaði samkeppni og því hafi verið rétt að ógilda hann.

„Slátra allri samkeppni“ í orðsins fyllstu merkingu

Kristinn Gylfi Jónsson sem var einn þeirra sem rak svínabúið að Brautarholti (ótengt búum Grísagarðs), fagnaði ákvörðuninni um ógildingu samrunans í Morgunblaðinu í nóvember 2011, enda hafi hann fært „einni og sömu fjölskyldunni um 70% af allri svínarækt í landinu“. Að sögn Kristins Gylfa virðist þó úrskurðurinn hafa komið of seint og skaðinn þegar skeður því fljótlega eftir að Stjörnugrís hafi tekið við búunum hafi öllum 600 gyltunum verið slátrað.

„Með því var verið að slátra allri samkeppni, því að það verður erfitt fyrir nýjan aðila að koma upp nýjum gyltustofni, það er ekki nema fyrir mjög fjársterka aðila,“ segir Kristinn sem var gagnrýninn á málsmeðferð Arion banka í málinu og vill rannsókn á því en hann taldi aðgerðirnar ólöglegar og segir afleiðingarnar vera að svínakjöt hafi hækkað um 42% á einu ári.

„En Stjörnugrís hlýtur að eiga að skila búinu í sama ástandi og tekið var við því. [...] Við fengum ekki að njóta þeirra skuldaúrræða sem um 700 fyrirtækjum hafa staðið til boða og förum fram á rannsókn á því.“

Ofangreindur Kristinn Gylfi hefur komið víða að í viðskiptalífinu. Hann komst meðal annars í kastljós fjölmiðla fyrir tæplega þremur árum síðan sem framkvæmdastjóri og annar eigenda Brúneggja. Á umbúðum eggja félagsins var tekið fram að velferð hænanna hafi verið í hávegum höfð, en Kastljósþáttur RÚV dró upp aðra mynd af stöðunni. Málið olli miklu fjaðrafoki í samfélaginu og fór það svo að lokum að Brúnegg sigldi í þrot.

Slátrun sögð vegna sýkinga og deilna

Geir Gunnar Geirsson einn eiganda Stjörnugríss svaraði ásökunum Kristins Gylfa í aðsendri grein í Morgunblaðinu um miðjan nóvember sama ár, og sagði fullyrðingar hans rangar, hlutdeild fyrirtækisins hafi verið nær 50% og þá einungis á innlenda markaðnum.

Loks má finna hluta úr frekari andsvörum Grísagarðsmanna á blogspot síðu frá árinu 2014, þar sem þeir benda á að með slátruninni á Gyltunum, sem Geir Gunnar segir hafa verið gerða vegna sýkinga og deilna við nágranna, hafi í tvö ár í það minnsta hindrað samkeppni frá svínabúinu.