*

miðvikudagur, 12. ágúst 2020
Innlent 5. desember 2019 13:17

Gjaldþrot iglo+indi nam 71 milljón

Eftir 11 ár í rekstri lokaði hönnunar- og barnafatamerkið verslun sinni í miðborginni samhliða samdrætti á svæðinu.

Ritstjórn
Helga Ólafsdóttir fatahönnuður var aðal hugmyndasmiðurinn á bak við ígló+indí.

Engar eignir fundust í búi félagsins Ígló ehf., sem hélt utan um rekstur hönnunar- og barnafatamerkisins iglo+indi og samnefnda verslun. Lýstar kröfur í félagið námu 71,1 milljón krónur. Sveinbjörn Claessen lögmaður var skiptastjóri búsins en skiptunum lauk í dag.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá á sínum tíma var fyrirtækið hugmyndafóstur hönnuðarins Helgu Ólafsdóttur en 78 milljóna króna tap var á rekstri félagsins árið 2017.

Á síðasta ári lokaði svo félagið verslun sinni í miðborginni á sama tíma og um 10% samdráttur var í verslun ferðamanna á svæðinu sem kom ofan í mikla óánægju verslunareigenda vegna lokana gatna af hálfu borgaryfirvalda.

Var félagið síðan úrskurðað gjaldþrota um miðjan september á þessu ári, en haft var eftir Helgu á Facebook að hún væri skiljanlega mjög sorgmædd yfir endalokum félagsins. Sagði hún flókið fyrir lítið hönnunarfyrirtæki að lifa af í sveiflukenndu rekstrarumhverfi þó það hafi tekist í 11 ár.