Engar greiðslur fengust upp í tæplega 165 milljóna króna gjaldþrot félagsins NFFF ehf., sem áður hét Nesfrakt NAV ehf., en þar áður TMS ehf, og loks þar áður Ice Holding á Íslandi ehf. Skiptalokum lauk um mánaðarmótin en félagið var úrskurðað gjaldþrota í júlíbyrjun árið 2016.

Viðskiptablaðið sagði frá því í ársbyrjun 2013 að félagið hefði gert fimm ára samning um allan innanlandsflutning hér á landi fyrir danska félagið Blue Water Shipping, á vörum sem koma með Norrænu til Seyðisfjarðar. Þá var Arnar Þór Ólafsson framkvæmdastjóri félagsins.

Félagið bauð þá upp á daglegar vöruferðir frá Reykjavík á flesta staði á landinu, en seinna sama ár keypti félagið rekstur flutningafyrirtækisins Austurfrakt að því er Morgunblaðið sagði frá.

Blue Water Shipping er staðsett í Esbjerg í danmörku en það var stofnað árið 1972. Velta félagsins árið 2016 var um 5,2 milljarðar danskra króna en þá störfuðu yfir 1500 manns hjá félaginu.