*

fimmtudagur, 27. janúar 2022
Innlent 14. apríl 2019 10:02

Gjaldþrot þyngir róðurinn í Grindavík

Ingvar Haraldsson
Haraldur Guðjónsson

Rekstur íslenskra knattspyrnuliða er víða þungur. Viðmælendur Viðskiptablaðsins lýsa fjármögnun knattspyrnudeilda félaganna sem mikilli vinnu og harki, sem að mestu er unnið í sjálfboðastarfi. Sex lið í Pepsi-deildinni voru rekin með tapi í fyrra og eigið fé þriggja liða var neikvætt um áramót og hjá öðrum sex liðum nam eigið féð átta milljónum króna eða minna um áramótin.

Í skýrslu stjórnar knattspyrnudeildar Grindavíkur segir að síðasta ár hafi verið það erfiðasta í rekstri félagsins. Gjaldþrot eins af styrktaraðilum félagsins hafi sett strik í reikninginn og valdið því að félagið hafi orðið af átta milljóna króna tekjum. Félagið hafi nú misst ellefu leikmenn frá síðasta tímabili og búist sé við að átta til níu ungir heimamenn muni æfa með meistaraflokki félagsins í ár.

Gunnar Már Gunnarsson, formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur, segir mikla vinnu fara í rekstur deildarinnar. „Auðvitað er þetta endalaust hark og endalaus símtöl, en sem betur fer er okkur oftast svarað játandi. Við erum með rosalega sterk fyrirtæki sem styðja vel við bakið á okkur,“ segir Gunnar Már.

Þá séu peningar ekki eina breytan sem skipti máli varðandi árangur. Gunnar Már bendir sem dæmi á Andra Rúnar Bjarnason, sem jafnaði markametið í efstu deild árið 2017 með Grindavík, á sínu fyrsta tímabili sem lykilmaður í liði í efstu deild.

Nánar er fjallað um afkomu íslenskra knattspyrnuliða í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Knattspyrna Grindavík fótbolti UFMG