Í maí 2007 staðfesti matsfyrirtækið Standard & Poor's lánshæfismatseinkunnina AAA á skuldabréfavafningnum Octonion I, sem gefinn var út af Citigroup. Tíu mánuðum seinna varð greiðslufall á vafningnum og tapaði bankinn allri sinni fjárfestingu sem og þeir sem keypt höfðu hluti í vafningnum.

Þetta mat S&P er ein af ástæðunum fyrir málshöfðun bandaríska dómsmálaráðuneytisins á hendur matsfyrirtækinu, en ráðuneytið vill fá allt að fimm milljarða dala sektardóm yfir S&P.

Heldur ráðuneytið því fram að matsfyrirtækið hafi gefið tugum slíkra vafninga allt of háar lánshæfiseinkunnir sem hafi ekki verið í samræmi við gæði hinna undirliggjandi fasteignalána sem vafið hafði verið saman í þessa vafninga. Dómsmálaráðherrann, Eric Holder, segir að á þessum tíma hafi allir skuldabréfavafningar, sem S&P gaf einkunn, hafi hrunið algerlega saman. Hegðun matsfyrirtækisins hafi verið óafsakanleg.

Octonion I var búinn til í febrúar 2007, að því er segir í frétt Bloomberg, og var einkunn S&P staðfest í maí sama ár. Um 76% af skuldabréfunum í vafningnum voru sértryggð skuldabréf byggð á undirmálsfasteignalánum frá árinu 2006, en á þessum tíma var greiningardeild S&P að fylgjast með þróun á fasteignamarkaði og vildi að lánshæfiseinkunnir á undirmálslánaskuldabréfunum yrðu lækkaðar. Aðeins tveimur mánuðum eftir að hafa staðfest einkunnina lækkaði S&P einkunnir á 11% á undirliggjandi skuldabréfunum í Octonion I, en lækkaði ekki einkunn vafningsins sjálfs.