Fram kemur í Lögbirtingablaðinu að skiptum sé lokið á þrotabúi félagsins X-2121 sem áður hét Útvarp Saga ehf. Engar eignir fundust í búinu og var skiptum því lokið án þess að greiðsla fengist upp í lýstar kröfur, en þær námu í heildina 42.531.885 krónum.

Félagið var úrskurðað gjaldþrota þann 10. desember síðastliðinn, en nafnabreytingin var hins vegar framkvæmd þann 22. september.

Í árslok 2013 var útvarpsstöðin dæmd til þess að greiða Sigurði G. Tómassyni , fyrrverandi útvarpsmanni á stöðinni, 745 þúsund krónur í vangoldin laun auk málskostnaðar. Lét Arnþrúður þá hafa eftir sér að útvarpsstöðin stefndi í þrot vegna málsins.

Í samtali við Kjarnann í byrjun janúar sagði Arnþrúður að rekstur stöðvarinnar hefði verið seldur öðru félagi í byrjun febrúar á síðasta ári, en vildi ekki tjá sig um málið að öðru leyti.