Valhúsgögn ehf. hafa verið úrskurðuð gjaldþrota en engar eignir fundust í búinu sem hætti starfsemi árið 2012 að sögn skiptastjórans Friðleifs Egils Guðmundssonar. Valhúsgögn störfuðu í 24 ár en félagið var til húsa í Ármúla 8, þar sem Heimahúsið er nú til húsa, gengt höfuðstöðvum VÍS.

Heildarskuldirnar námu 12.669.525 milljónum króna, sem að sögn skiptastjórans voru að mestu vörslugjöld og annað sem hafi verið í ábyrgð en kröfur gagnvart birgjum og annarra höfðu þá þegar verið gerðar upp. Friðleifur segir að það hafi að lokum verið Tollstjóri sem fór fram á gjaldþrotið.

Stofnandi Valhúsgagna, Haraldur Sigurgeirsson, lést í byrjun árs 2009 en hann hélt utan um reksturinn alla sína tíð. Í kjölfarið var reksturinn dreginn saman og loks gerður upp að sögn Friðleifs. „Þeir hættu bara rekstri, seldu bara allt og svo er þetta bara kennitalan sem sat eftir sem var ekki afskráð,“ segir Friðleifur.