Skiptum er lokið á tæplega 600 milljóna gjaldþrot félagsins R 18 ehf., áður Örk byggingafélag ehf., en skiptum laum á samnefndu félagi í september árið 2011. Það félag var stofnað árið 2009, en félagið sem nú hefur verið tekið í gjaldþrotaskipti var stofnað árið 2013, en úrskurðað gjaldþrota um miðjan mars árið 2017.

Kröfum sem lýst var í búið námu samtals rúmlega 587 milljónum króna, en þar af voru 16,8 milljónir tæpar samþykktar sem forgangskröfur. Ekkert fékkst greitt upp í almennar kröfur. Félaginu var gert að greiða 11 milljónir króna í kjölfar þes að krani sem félagið hafði á leigu féll í lok september 2016 við framkvæmdir við húsnæði í kvosinni fyrir félagið Suðurhús.

Samkvæmt frétt DV um málið á sínum tíma var greiðslan vegna eyðileggingar kranans, kvist sem kýldist niður í húsið og upphífingar á brakinu. Ásgeir Arnór Stefánsson eigandi fyrirtækisins var gagnrýninn á eftirlit Vinnueftirlitsins sem sakaði hann um að hafa sett meiri þunga á kranann en heimilt var.

„Ellefu milljónir er mikið fyrir lítið fyrirtæki,“ segir Ásgeir Arnór. „Ég hef hugsað um að kæra, en ég hef ekki gert það því að dómsmál geta farið á hvorn veginn sem er. Ég var alltaf mjög ósáttur við þetta.“ Samkvæmt facebook síðu félagsins hefur það starfað mikið við uppbyggingu á háskólasvæðinu, meðal annars við höfuðstöðvar Alvogen, en einnig í brúarsmíði á Vestfjörðum og fleira.