Gjaldþrotabeiðnum fyrirtækja síðustu 12 mánuði frá mars 2016 til febrúar 2017 hefur fjölgað um 55% í samanburði við 12 mánuði þar á undan. Alls voru 974 fyrirtæki tekin til gjaldþrotaskipta á tímabilinu á tímabilinu, samanborið við 630 á fyrra tímabili. Þetta kemur fram í tölum Hagstofu Íslands .

Gjaldþrotum fjölgaði hlutfallslega mest í leigustarfsemi og ýmissi sérhæfðri þjónustu, samkvæmt tölum Hagstofu Íslands, þar sem þeim fjölgaði úr 30 í 59 frá fyrra tímabili eða um 97%,. Gjaldþrotum fjölgaði í öllum helstu atvinnugreinabálkum frá fyrra tímabili.

Nýskráningum fjölgar um 12%

Nýskráningar einkahlutafélaga í febrúar 2017 voru 257. Síðastliðna 12 mánuði, þ.e. frá mars 2016 til febrúar 2017, hefur nýskráningum einkahlutafélaga fjölgað um 12% samanborið við 12 mánuði þar á undan. Í heildina voru 2.714 ný einkahlutafélög skráð á tímabilinu, samanborið við 2.430 á fyrri 12 mánuðum.

Hlutfallsleg fjölgun nýskráninga var mest í leigustarfsemi og ýmissi sérhæfðri þjónustu, þar sem þeim fjölgaði úr 185 í 281 á síðustu 12 mánuðum eða um 52%.