*

sunnudagur, 18. ágúst 2019
Innlent 11. júní 2015 15:12

Gjaldþrotakrafa Heiðars skipti stjórnvöld ekki máli

Benedikt Gíslason og Sigurður Hannesson segja að nauðsynlegt hafi verið að forgangsraða losun hafta í þágu kröfuhafa.

Jóhannes Stefánsson
Haraldur Guðjónsson

Benedikt Gíslason og Sigurður Hannesson eru varaformenn framkvæmdahóps um afnám fjármagnshafta. Þeir eru í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu í dag.

Heiðar Már Guðjónsson vildi fá gjaldþrotaskipti yfir Glitni. Var það mál sem þið fylgdust vel með?

„Bara eins og aðrir, í gegnum fjölmiðla," segir Benedikt.

Það hefði engu breytt um ykkar áform?

„Nei, það er ekki hlutverk stjórnvalda að ákveða hvernig skuldaskilin fara fram. Okkar verkefni var að leysa þennan greiðslujafnaðarvanda. Það er algjörlega í höndum kröfuhafa og slitastjórna hvernig þau ákveða að klára sín skuldaskil. Heiðar hefur sem kröfuhafi rétt á því að fara niður í héraðsdóm og fara fram á gjaldþrotaskipti ef hann telur að það þjóni sínum hagsmunum. Það er hluti af lagaumhverfinu," bætir hann við.

Greindu báðar leiðir

Sigurður bætir við: „Ég hef ekki orðið var við það að stjórnvöld hafi haft nokkra skoðun á því hvora leiðina slitabúin ættu að fara. En hins vegar er það þannig að það eru bara tvær leiðir í boði, sem eru gjaldþrot annars vegar og nauðasamningar hinsvegar. Þannig að það hefði verið óábyrgt hjá stjórnvöldum að greina ekki báðar leiðir.“

„Það hefði ekki verið mikilvægt upp á áhættu og stöðugleika í gengis- og peningamálum. Þannig að það var mikil ábyrgð sem fylgir því að vera undirbúinn undir það, hvor leiðin sem hefði verið farin," segir Benedikt.

„Stóra málið er að leysa vandann. Hvort búin kjósa nauðasamning eða gjaldþrot, er ekki í höndum stjórnvalda," segir Sigurður.

„Hvorki stöðugleikaframlagið eða stöðugleikaskatturinn tekur afstöðu til þess. Stöðugleikaskatturinn leggst á eignir búanna. Þegar greiðslujafnaðaráhætta slitabúanna hefur verið takmörkuð og leysa úr ágreiningi, þá fá búin þær undanþágur sem þær þurfa og geta klárað sín skuldaskil hvort sem er með gjaldþroti eða nauðasamningi," bætir Benedikt við.

Nauðsynlegt að forgangsraða í þágu kröfuhafa

Kröfuhöfum slitabúanna og aflandskrónueigendum er hleypt fyrst út og sú forgangsröðun hefur verið gagnrýnd. Hvaða skoðun hafið þið á því? 

„Stærsti hluti vandans stafar af slitabúum og aflandskrónum. Sá vandi mun ekki hverfa og í raun hefur hann aukist ár frá ári undanfarin ár. Forsenda þess að hægt sé að létta höftum af almenningi er að leysa þessi stóru mál," segir Sigurður.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.