Bandaríski fjárfestingabankinn Lehman Brothers, sem varð gjaldþrota um miðjan september 2008 eins og frægt er, hefur nú lokið formlegri gjaldþrotameðferð.

Það þýðir í stuttu máli að bankanum er nú heimilt að selja eftirstandandi eignir og gera upp við kröfuhafa sína. Tilsjónaraðilar bankans lýstu því yfir í gærkvöldi að bankinn myndi að öllum líkindum greiða um 65 milljarða Bandaríkjadali til kröfuhafa þann 17. apríl nk. Það þýðir að kröfuhafar, sem eiga forgangskröfur í þrotabú bankans, fá um 21-28 cent fyrir hvern dal sem þeir eiga kröfu í.

Hér er í raun um lagalega skilgreiningu að ræða eins og það er útskýrt í frétt Reuters. Bankinn er gjaldþrota sem fyrr en sem fyrr segir hafa skiptastjórar eða tilsjónarmenn nú aukið frelsi til að losa um eignir þar sem búið er að skilgreina allar forgangskröfur.

Enn eru þó fjölmörg mál óleyst varðandi kröfur í bankann en um 26 þúsund beiðnir eða stefnur um forgangskröfu bíða nú afgreiðslu tilsjónarmanna. Dómsúrskurður í einni beiðni getur þó haft fordæmi fyrir fjölda annarra.

Sem fyrr segir varð bankinn gjaldþrota þann 15. september 2008. Gjaldþrot bankans, sem þá var fjórði stærsti fjárfestingabanki Bandaríkjanna, markaði mikil tímamót í þeirri alþjóðlegu fjármálakreppu sem þá var byrjuð að skekja fjármálamarkaði út um allan heim, þá sérstaklega á Vesturlöndum. Þá störfuðu um 25 þúsund manns hjá bankanum en gjaldþrot hans nam um 640 milljónum dala. Margir hafa talið að gjaldþrot bankans hafi orsakað enn meiri lausafjárþurrð en fyrir var á vestrænum fjármálamörkuðum.