Nýlega lauk gjaldþrotaskiptum hjá iðnaðarfyrirtækinu Formaco ehf. og nam heildarfjárhæð lýstra krafna tæplega 1,3 milljörðum króna. Við skiptin komu rúmar 260 milljónir upp í veðkröfur og greiddust forgangskröfur upp á 5,9 milljónir að fullu. Upp í samþykktar kröfur, sem voru tæplega 1,1 milljarður, greiddust þó einungis 7,5 milljónir króna eða 0,7% af kröfunum.

Formaco var stofnað árið 1997 af Ragnari Jóhannssyni og Helgu Margréti Jóhannsdóttur og var markmið fyrirtækisins að þjónusta byggingariðnaðinn. Fyrirtækið flutti m.a. inn risastóra krana og ýmsa aðra hluti á borð við áklæðningar. Árið 2004 keypti Formaco svo fyrirtæki að nafni Idex og sameinaði það sínum rekstri.

Idex tekur yfir starfsemi Formaco

Þegar hæst bar árið 2008 voru starfsmenn Formaco um 80 talsins. Vöxtur fyrirtækisins hafði verið afar ör og reisti það álgluggaverksmiðju á Keflavíkurflugvelli skömmu fyrir hrun. Einungis fimm mánuðum síðar var öllu starfsfólki Formaco sagt upp og 29. maí 2009 var félagið tekið til gjaldþrotaskipta.

Sama ár tók fyrirtækið Idex yfir öll vöruumboð Formaco. Framkvæmdastjóri félagsins er Ragnar Jóhannsson og þar starfar einnig Ástvaldur Guðbergsson, sem var með honum hjá Formaco.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .