Á öðrum ársfjórðungi 2017 voru 157 fyrirtæki tekin til gjaldþrotaskipta, þar af 69 í apríl, 20 í maí og 68 í júní. Gjaldþrotabeiðnum fyrirtækja á öðrum ársfjórðungi 2017 fækkaði um 55% frá öðrum ársfjórðungi 2016, en þá voru gjaldþrotabeiðnirnar 352 talsins að því er kemur fram í tölum Hagstofu Íslands yfir gjaldþrot og nýskráningar á öðrum ársfjórðungi.

Gjaldþrotum fækkaði í öllum helstu atvinnugreinabálkum. Þar af voru 31 gjaldþrot í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð og fækkaði þeim um 52% frá öðrum  ársfjórðungi. Í heild- og smávöluverslun voru 31 gjaldþrot og fækkaði þeim úr 66 frá öðrum ársfjórðungi fyrra árs eða 53% fækkun.

Gjaldþrotabeiðnum fyrirtækja síðustu tólf mánuði, frá júlí 2016 til júní 2017, fækkaði um 16% í samanburði við 12 mánuði þar á undan.A lls voru 716 fyrirtæki tekin til gjaldþrotaskipta á tímabilinu, borið saman við 851 á fyrra tímabili.

Flestar nýskráningar í fjármála- og vátryggingastarfsemi

Nýskráningar einkahlutafélaga á öðrum ársfjórðungi 2017 voru 689, þar af 189 í apríl, 258 í maí og 242 í júní. Nýskráningum fækkaði um 11% á öðrum ársfjórðungi 2017, borið saman við annan ársfjórðung 2017 þegar þær voru 771.

Ef litið er á fjölda nýskráninga eftir helstu bálkum atvinnugreina voru flestar nýskráningar í fjármála- og vátryggingastarfsemi, 111, byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð ,94, og fasteignaviðskiptum ,94,. Sé borið saman við annan ársfjórðung 2016 fjölgaði nýskráningum úr 52 í 64 í sérfræðilegri, vísindalegri og tæknilegri starfsemi eða um 23%, en fækkaði í flestum öðrum atvinnugreinabálkum, t.d. úr 39 í 21 í landbúnaði, skógrækt og fiskveiðum , eða um 46%, og úr 57 í 36 í upplýsingum og fjarskiptum eða um 37%.

2.643 ný einkahlutafélög voru skráð á síðustu tólf mánuðum, frá júlí 2016 til júní 2017, og fjölgaði nýskráningum lítillega frá fyrri tólf mánuðum, en þá voru nýskráningarnar 2.633.