Í síðasta mánuði voru 138 ný einkahlutafélög nýskráð. Á sama tíma í fyrra voru tólf fleiri einkafélög skráð, samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar. Flest sem skráð voru ný starfa á sviði fjármála- og vátryggingarstarfsemi. Á fyrstu níu mánuðum ársins voru nýskráningar 1.330 talsins samanborið við 1.255 í fyrra.

Á sama tíma voru 128 fyrirtæki tekin til gjaldþrotaskipta í síðasta mánuði, flest í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð. Á fyrstu níu mánuðum ársins eru gjaldþrotin 789 samanborið við 1.122 fyrirtæki sem voru tekin til gjaldþrotaskipta í fyrra. Þetta er 30% samdráttur á milli ára. Flest voru gjaldþrotin í flokki fyrirtækja í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð eða 166 talsins.