Á árinu 2017 voru alls 2.577 ný einkahlutafélög skráð sem er 3% fækkun frá árinu 2016 að því er Hagstofan greinir frá. Fjöldi nýskráninga á landsbyggðinni var nánast óbreyttur milli ára á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu nam fækkunin 5%, þar sem þær fór úr 2.019 niður í 1.926.

Fækkaði nýskráningum meðal annars í leigustarfsemi og ýmissi sérhæfðri þjónustu úr 272 í 209 eða um 23%. Fækkunin í flokki landbúnaðar, skógræktar og fiskveiðum nam 39%, en þar fóru nýskráningar úr 92 niður í 56. Mest fjölgun var svo í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, en þar fóru þær úr 346 í 417, sem er aukning um 21%.

Enn meiri fækkun var í gjaldþrotabeiðnum á árinu eða um 27% frá árinu 2016, og fóru þær úr 1.030 niður í 747 fyrirtæki. Var fækkunin mest áberandi í fjármála- og vátryggingarstarfsemi, eða um 49%, en þar fækkaði þeim úr 94 niður í 48.

Einnig var mikil fækkun í heild- og smásöluverslun og viðgerðum á vélknúnum ökutækjum, eða um 33%. Fækkun var í nánast öllum atvinnugreinum nema í flutningum og geymslu, þar fjölgaði þeim úr 22 í 28, eða um 27%. Eilítil fjölgun var á gjaldþrotum á landsbyggðinni, eða um frá 149 árið 2016 í 154 árið 2017, sem er 3% fjölgun. Hins vegar var þriðjungsfækkun á höfuðborgarsvæðinu, þar sem fjöldi þeirra fór úr 877 niður í 594.