Gjaldþrot félagsins Hóras ehf., sem rak The Viking mingjagripaverslanirnar nemur rúmlega 204 milljónum króna, en félagið hefur verið gert upp. Engar eignir fundust í búinu, en eins og Viðskiptablaðið sagði frá var rekstur verslananna seldur til Pennans í kjölfar þess að félagið H-fasteignir ehf. tók hann yfir í byrjun ársins.

Yfirtaka H-fasteigna kom í kjölfar þess að Tollstjóri lokaði verslunum The Viking vegna vanskila Hórasar, en bæði félögin voru undir stjórnarformennsku Sigurðar Guðmundssonar eiganda verslananna. Gat reksturinn haldið áfram eftir að meirihluti gjaldanna hafði verið greiddur en árangurslaust fjárnám var reynt sjö sinnum hjá Hórasi ehf. á sjö árum að því er RÚV segir frá.

Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um kaup Pennans á verslununum kemur fram að mikill samdráttur hafi verið á veltu fyrirtækisins á síðasta ári, væntanlega vegna minnkandi kaupmáttar ferðamanna í íslenskum krónum.

Samkeppniseftirlitið veitti síðan undanþágu fyrir því að kaup Pennans á verslununum geti gengið í gegn strax, með þeim skilyrðum að stofnunin hafi trygga möguleika til íhlutunar meðan málið er til umfjöllunar. Stofnunin komst að þeirri niðurstöðu að samruninn raskaði ekki samkeppni.

Félagið Hóras var í lok síðasta árs sýknað í héraðsdómi af kröfu Drífu ehf. sem framleiðir vörur undir merkjum Icewear og Norwear um að The Viking verslununum, í samvinnu við Álafoss, yrði bannað að framleiða og selja vörur undir merkjum 874 sem Drífa segir að hafi svipað til sinna eigin vara. Hér má sjá frétt Sjónvarps Viðskiptablaðsins um málið og vandann með mögulegar eftirlíkingar.