Í brýnu sló á milli þeirra Katrínar Júlíusdóttur, þingmanns Samfylkingarinnar og fyrrverandi iðnaðarráðherra, og Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, núverandi iðnaðarráðherra, þegar þær ræddu málefni álvers í Helguvík á Alþingi í dag. Slíkur var hamagangurinn á tímabili þegar þær ræddu stuðning fyrrverandi ríkisstjórnar og núverandi við álverið að Katrín barði hnefa nokkrum sinnum í ræðupúlt Alþingis.

Ragnheiður Elín vísaði til ummæla Michael A. Bless, forstjóra Century Aluminum, sem Viðskiptablaðið fjallaði um í síðustu viku þess efnis að ekki verði farið út í framkvæmdir við Helguvík nema arðsemin verði einstaklega góð. Litið sé svo á að málið sé strand og kostnaðurinn sokkinn. Hún sagði þetta ekki góðar fréttir. Hún hafi hins vegar ekki heyrt þetta bent frá forstjóranum sjálfum. „Ég tel að öll staða sé betri en núverandi staða. Það þarf að taka ákvarðanir af eða á til að eyða óvissunni,“ sagði hún.

Ekki einhugur um álverið

Ragnheiður sagði jafnframt það hafa legið fyrir að vinstristjórn Samfylkingar og VG hafi ekki stutt verkefnið og bætti við að sá munur sé á sitjandi ríkisstjórn og hinni að nú sé einhugur um verkefnið. „Ef í ljós kemur að ekki er vilji til að halda því áfram þá munum við ekki þrýsta því áfram svo fyrirtækin komi aftur að því áfram,“ sagði hún.

Þessu vísaði Katrín á bug og sagði að í hennar ráðherratíð hafi engar viðræður hafa átt sér stað við Century Aluminum og gat ríkisstjórnin því enga ákvörðun tekið.

„Gjammið á síðasta kjörtímabili voru orðin tóm!“ sagði hún og barði í púltið.