Hagnaður útgerðarfyrirtækisins Gjögurs nam í fyrra 686,8 milljónum króna, samanborið við 1.472 milljóna króna hagnað árið 2014. Munurinn skýrist að stærstum hluta af því að árið 2014 var hlutdeild félagsins í afkomu hlutdeildarfélaga 2,1 milljarður króna.

Þann 1.janúar 2015 var félaginu skipt í tvo hluta, með þeim hætti að Kjálkanes ehf., tók við hluta eigna og skulda félagsins. Við skiptinguna rann eignarhlutur Gjögurs hf. í Síldarvinnslunni hf. að bókfærðu verði 10,7 milljarðar króna. Gjögur fær því ekki hlutdeild í afkomu hlutdeildarfélagsins eins og áður.

Seldur afli nam í fyrra 5,5 milljörðum króna, en var árið 2014 4,6 milljarðar. Rekstrarhagnaður jókst úr 455 milljónum króna árið 2014 í 1.044 milljónir í fyrra.

Eignir félagsins um síðustu áramót námu 12,3 milljörðum króna og þar af voru fiskveiðiheimildir metnar á 8,7 milljarða króna. Skuldir námu 8,2 milljörðum króna og þar af voru langtímaskuldir við lánastofnanir 5,7 milljarðar. Eigið fé nam 4,2 milljörðum króna um áramótin.