*

miðvikudagur, 19. janúar 2022
Erlent 19. október 2021 13:49

Gjöld á Heathrow gætu hækkað um 50%

Lendingargjöld á Heathrow gætu hækkað um allt að 56% miðað við ný verðlagshöft breskra flugmálayfirvalda.

Ritstjórn
epa

Heathrow, stærsti flugvöllur Bretlands, gæti hækkað lendingargjöld um allt að 56% miðað við nýja tillögu um verðlagshöft frá bresku flugmálastofnuninni CAA (Civil Aviation Authority). Breytingin hefur ekki fallið vel í kramið hjá flugfélögum.

Stofnunin tilkynnti í dag um að Heathrow, sem staðsettur er í London, geti hækkað lendingargjöld, sem eru nú 22 pund á hvern farþega, upp í bilið 24,5-34,4 pund á næstu fimm árum. Flugvöllurinn hafði vonast eftir að leyfilega verðbilið yrði 32-43 pund.

Heathrow er þegar með ein hæstu gjöld í heimi og kostnaðurinn er yfirleitt látinn falla á neytendur í gegnum hærri verð, að því er kemur fram í frétt Financial Times.

Verðlagshöft CAA eru að sögn Tim Alderslade, forstjóra hagsmunasamtakanna Airlines UK, síðasta vörn flugfélaga gegn „einokunar-misnotkunar hjá tengiflugvelli (e. hub airport)“. Nú væri þörf á sterkum eftirlitsaðila til að „stemma stigu við blygðunarlausri okrun.“

CAA sagði að breytingarnar myndu halda verði á viðráðanlegu stigi fyrir farþega en á sama tíma gera eigendum Heathrow kleift að fjárfesta í flugvellinum á þessum óvissutímum. Flugfélög hafa hins vegar bent á að flugvöllurinn hafi greitt út stórar fjárhæðar í arð á árunum fyrir Covid-farsóttina.

Heathrow er í eigu innviðafjárfesta, þar á meðal spænska fyrirtækinu Ferrovial, katarska þjóðarsjónum QIA, og kanadíska lífeyrissjóðnum Caisse de dépôt et placement du Québec.

Stikkorð: Heathrow CAA lendingargjöld