Í dag fer fram hið árlega útboðsþing um verklegar framkvæmdir hjá hinu opinbera.  Á þinginu sem haldið er á Grand Hótel hefur verið farið yfir ýmsar framkvæmdir og má þar meðal annars nefna verkefni Reykjavíkurborgar.

Hrólfur Jónsson, sviðsstjóri Framkvæmdasviðs Reykjavíkurborgar kynnti helstu verkefni borgarinnar og má þar nefna að í undirbúningi sé að kanna áhuga einkaaðila til þátttöku í uppbyggingu heilsulindar í tengslum við sundlaug Vesturbæjar, innilaug og heilsuræktarstöð. Áætlaður kostnaður við framkvæmdirnar eru 1500 milljónir króna. Áætluð verkslok í desember 2008.

Einnig kynnti Hrólfur fyrirhugað hjúkrunarrými við Suðurlandsbraut fyrir 110 einstaklinga. Heildarstærð þeirrar byggingar er nærri 7.900 fm2 og eru verklok áætluð árið 2009.

Athyglisvert þótti einnig áætlun um að hefja undirbúning að hönnun á vatnaparadís í Úlfarsárdal.

Óskar Valdimarsson, forstjóri Framkvæmdasýslu ríkisins, kynnti fyrirhugaðar snjóflóðavarnir í Bolungarvík.  Áætlaður kostnaður framkvæmdanna er 670 milljónir króna og fer útboð fram nú í vor.

Björn Stefánsson, deildarstjóri Landsvirkjunar, sagði að áætluð gjöld Landsvirkjunar vegna Kárahnjúka fyrir árið 2007 séu 18,3 milljarðar króna.  Björn kynnti einnig áætlaða virkjun fyrir álver við Húsavík og sagði ákvörðun væntanlega árið 2008.