Handbært fé frá rekstri ríkissjóðs á síðasta ári var neikvætt um 73,7 milljarða króna, samkvæmt greiðsluuppgjöri ríkissjóðs sem birt var í dag. Handbært fé frá rekstri var neikvætt um 150,4 milljarða króna árið 2009. Tekjur reyndust um 47,3 milljörðum krónum hærri en í fyrra á meðan gjöld drógust saman um 20,5 milljarða króna. Fjármálaráðuneytið segir að þetta sé mun betri niðurstaða en gert var ráð fyrir í áætlunum. Þar var gert ráð fyrir að handbært fé frá rekstri yrði neikvætt um 95,4 milljarða.

Avens samningurinn stór þáttur

„Innheimtar tekjur ríkissjóðs námu 461,9 milljörðum króna á árinu 2010 sem er 47 milljarða króna aukning frá árinu 2009, eða liðlega 10%. Þá urðu innheimtar tekjur 15,9 milljörðum meiri en áætlun fjárlaga gerði ráð fyrir og 3,8 milljörðum meiri en gert var ráð fyrir í áætlun fjáraukalaga. Frávikið frá fjárlagaáætluninni stafar einkum af 17,5 milljarða króna hagnaði vegna svonefnds Avens-samkomulags, sem ekki var reiknað með í fjárlögum. Sé hann undanskilinn eru heildartekjur 0,4% undir áætlun, en stór hluti þess fráviks er í vaxtatekjum vegna breyttra forsendna um lán og endurlán ríkissjóðs. Frumtekjur (heildartekjur án vaxtatekna) eru umfram áætlun fjárlaga hvort sem hagnaður Avens-samkomulagsins er tekinn með eða ekki,“ segir í greiðsluuppgjörinu.

Greiðsluafkoma ríkissjóðs 2010 .