Fjármálaráðuneytið birti í dag greiðsluafkomu ríkissjóðs fyrir fyrstu 10 mánuði ársins.

Tekjur ríkissjóðs á fyrstu tíu mánuðum ársins námu 308 milljörðum króna sem er samdráttur frá sama tímabili árið á undan. Minni tekjur á árinu skýrast að miklu leyti af söluhagnaði Landssímans sem var tekjufærður í september í fyrra. Tekjur reyndust um 28,5 milljörðum hærri en í fyrra ef undanskildar eru tekjur vegna sölunnar á Landssímanum sem er 10,2% aukning á milli ára.

Gjöld ríkissjóðs hækka hinsvegar aðeins um 2,2 milljarða á milli ára. Greidd gjöld það sem af er árinu í lok október námu 258,8 milljörðum króna og hækka um 7,1% milli ára, ef undanskilin eru vaxtagreiðslur og fjármagntekjuskattur. Þar munar mestu um 4,9 milljjarða hækkun heilbrigðismála og 3,1 milljarð til menntamála. Þá hækka greiðslur til almannatrygginga- og velferðarmála um 2,5 milljarða og til almennrar opinberrar þjónustu um 2,3 milljarða. Greiðslur til löggæslu hækka um 1,5 milljarða, en greiðslur til atvinnumála hækka mun minna, eða um 0,8 milljarða milli ára. Heilbrigðismál og almannaatryggingar vega samtals um helming af heildargreiðslum ríkissjóðs.


Mikil umsvif í hagkerfinu hefur skilað ríkisjóði auknum skatttekjum það sem af er ári. Tekjuskattur einstaklinga jókst um 13% og lögaðila um 65% . Innheimtur fjármagnstekjuskattur nam 18 ma.kr. og jókst um 1,4% milli ára, en fjármagnstekjuskattur vegna sölu Landssímans myndaði 5,6 ma.kr. tekjur fyrir ríkissjóð í september í fyrra. Sé litið fram hjá þeim eina lið jókst fjármagnstekjuskattur á tímabilinu um 48% milli ára.

Tekjur af virðisaukaskatti jukust um 11,5% sem jafngildir 4,6% raunaukningu. Aðrir veltuuskattar en virðissaukaskattur nema tæpum þriðjungi af veltusköttum í heild. Þessir skattar hafa dregist saman að raunvirði á síðustu mánuðum, og er þá miðað við hreyfanlegt meðaltal yfir nokkra mánuði.

Lántökur ársins nema 26 milljörðum króna en afborganir lána eru 41,6 milljarðar. Mismunurinn er fjármagnaður með handbæru fé frá rekstri.Eiginfjárframlag ríkisins í Nýsköpunarsjóði var aukið um 1 milljarð króna á árinu og 3,3 milljarðar voru greiddir til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins í því skyni að lækka framtíðarskuldbindingar.