Ágúst Pétursson, formaður Meistarafélags iðnaðarmanna í Hafnarfirði, segir að vissulega þurfi að lækka lóðaverð ef mæta eigi þörf markaðarins fyrir litlar og ódýrar búðir.

„Síðan hafa lagst á okkur alls konar gjöld sem enginn botnar upp né niður í," segir Ágúst. „Þetta eru leyfisgjöld og gjöld fyrir úttektir og margt fleira. Það nýjasta er svokallað umfjöllunargjald. Ég þarf sem sagt að borga Hafnarfjarðarbæ 10 þúsund króna gjald ef ég sendi til dæmis skipulagsfulltrúa fyrirspurn. Rökin eru þau að það fari tími í að taka málið fyrir. Þetta er svona sambærilegt við það að ég myndi neita að taka við bréfi frá bænum nema hann borgaði mér sérstakt gjald því það tekur auðvitað tíma fyrir mig að lesa bréfið og svara því. Þessi gjöld öll eru fyrir löngu komin út fyrir öll velsæmismörk."

Ágúst segir að byggingarreglugerðin sé allt of stíf. „Það væri hægt að byggja miklu ódýrara ef það væri aðeins vikið frá þessum reglum í einhverjum tilvika. Ég nefni til dæmis kröfur um algilda hönnun og auknar rýmiskröfur. Það er alltaf verið að tala um gæði íbúða en það eru líka gæði að geta einfaldlega komist í sína eigin íbúð. Kröfur um algilda hönnun hafa leitt til þess að kostnaður við byggingu íbúða eykst um 10 til 12%."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .