Hátt olíuverð er loks farið að hafa veruleg áhrifa á bílakaup Bandaríkjamanna samkvæmt frétt The Detroit News.

Í fyrsta sinn í að minnsta kosti tvo áratugi eru neyslugrannir fólksbílar orðnir söluhærri en jeppar og stórir skúffubílar.

Í apríl jókst sala á fólksbílum í Bandaríkjunum úr 622.873 í 655.432 bíla eða um 5,2%.

Sala á stóru jálkunum dróst hins vegar verulega saman og hrapaði úr 715.730 í 591.122 bíla eða um 17,4%.

Þessi mikla breyting er kjaftshögg fyrir stóru þrjá amerísku bílarisana, Ford, General Motors og Chrysler.

Þessi fyrirtæki hafa öll veðjað stíft á sölu á jeppum (SUV) og það sem Bandaríkjamenn kalla trukka, eða stóra pallbíla.

Hefur svo verið undanfarna áratugi, enda hafa Bandaríkjamenn ekki þurft að hafa miklar áhyggjur af eldsneytisverðinu sem ber auk þess litla sem enga skatta. Nú eru þeir hins vegar heldur betur farnir að finna fyrir olíuverðshækkunum.

Það er bílaframleiðandinn Chrysler sem finnur mest fyrir þessari breytingu sala fyrirtækisins dróst saman um 23,5% í apríl og hjá GM var fallið 16,2%. Ford varð fyrir minnsta söluskellinum af amerísku risunum, en þar minkaði salan um 12,1%.

Það eru japönsku bílafyrirtækin sem græða mest á þessari breytingu, en þá aðallega í aukinni sölu á eyðslugrennstu bílunum.

Toyota bjó t.d. við 3,4% söluaukningu í apríl og er því komin með 17,5% markaðshlutdeild í Bandaríkjunum með sölu á 217.700 bílum.

Salan á Toyota Tundra jeppanum dróst hins vegar saman um 6%. Nissan jók söluna um 6,7% í apríl og er með 6,1% markaðshlutdeild og Honda jók líka sína sölu og er komið með 10,8% markaðshlutdeild.