Samkvæmt tillögu Portus Group verður tónlistar- og ráðstefnubyggingin við Austurhöfn staðsett austarlega á byggingarlóðinni. Að hluta til stendur húsið á landfyllingu, sem gerð verður í Austurbugtinni þar sem hafnarbakkinn verður færður fram. Samanlögð stærð tónlistarhússins og ráðstefnumiðstöðvarinnar er um 23.000 fermetrar og mun byggingin m.a. rúma tónleikasal sem tekur 1.800 manns í sæti, tvískiptanlegan ráðstefnusal með 750 sætum, kammermúsíksal með 450 sætum og minni sal/aðstöðu fyrir 180-200 áheyrendur.

Einnig er gert ráð fyrir hótelbyggingu sem verður álíka stór og tónlistarhúsið og ráðstefnumiðstöðin og er hún staðsett á vesturhluta lóðarinnar. Þá felur tillagan einnig í sér stórkostlega uppbyggingu á aðliggjandi lóðum, sem vinningshafinn kaupir byggingarrétt á og fær að byggja á fyrir eigin reikning. Alls nemur heildarbyggingarmagnið sem tillagan nær til yfir 80.000 fermetrum og mun uppbyggingin gjörbreyta miðborg höfuðborgarinnar.