Trúnaðarmannaráðstefna Rafiðnaðarsambands Íslands, sem haldin var á Selfossi dagana 3. og 4. nóvember 2016, krefst þess í fréttatilkynningu að kjararáð dragi úrskurði sína til baka um hækkun launa alþingismanna, ráðherra og forseta Íslands sem og þá úrskurði sem hækkuðu laun afmarkaðra hópa umfram það sem almennt gerist á íslenskum vinnumarkaði.

Sambandið segir að úrskurðir kjararáðs séu til þess fallnir að gjöreyða þeirri sátt í samfélaginu sem reynt hefur verið að móta á undanförnum árum með miklum átökum. Segja þeir nauðsynlegt að árétta að öll ábyrgð á úrskurðum kjararáðs hvílir á Alþingi og alþingismönnum sjálfum.

Segja sátt ekki geta skapast

„Það getur ekki skapast sátt í samfélaginu um að laun þessara hópa sem nú fá launahækkun upp á allt að 75% frá árinu 2013 á sama tíma og almenningi er gert að sætta sig við 32% launahækkun og þar með talið með auknu framlagi til lífeyrismála frá sama tíma en þó til lengri tíma eða til ársins 2018.

Hækkunin hjá alþingismönnum getur numið allt að 800.000 krónum á mánuði eða vel ríflega tvöföldum lágmarkslaunum rafiðnaðarmanns.

Lífeyrisréttindi ráðherra hækka jafnframt gríðarlega samhliða þessari hækkun og er ekki í nokkrum takti við það sem almennt gerist á íslenskum vinnumarkaði.

Öllum umræðum um innleiðingu nýs samningalíkans er með þessari ákvörðun sturtað niður í einu vetfangi og verður þeirri vinnu ekki haldið áfram á komandi árum að öðru óbreyttu.

Trúnaðarmannaráðstefna RSÍ krefst þess að róttækar breytingar verði gerðar á kjararáði með það að markmiði að tengja ákvarðanir þess við raunveruleikann. Að öðrum kosti hlýtur að vera augljóst að kjarasamningum verði sagt upp í upphafi næsta árs með tilheyrandi óróleika og átökum.“