Það þarf ekki að vera óheimilt að veðsetja fjárkröfur, segir Fjármálaeftirlitið um mál fjármögnunarfyrirtækisins Lýsingar.

VB.is greindi frá því í gær að Lýsing hefði lokið við endurfjármögnun fyrirtækisins. Sem hluti af því hafa allar kröfur Lýsingar á viðskiptavini sína verið veðsettar Straumi. Í bréfi, sem viðskiptavinum var sent í síðustu viku, kemur fram að þessi gjörningur muni ekki hafa nein áhrif á viðskiptavinina.

Í svari frá Fjármálaeftirlitinu segist stofnunin ekki geta svarað varðandi tiltekin dæmi. „Gagnvart fjölmiðlum og almenningi getum við aðeins svarað því til að við fylgjum eftir öllum ábendingum sem okkur berast og bregðumst við eftir því sem þurfa þykir,“ segir í svarinu.