Glacial Water Ltd. hefur gengið frá samningi um framleiðslu á vatni fyrir Latabæ undir heitinu Go Water. Er gert ráð fyrir að átöppun hefjist í nóvember næstkomandi en fyrirtækið er staðsett í Hafnarfirði og sækir vatnið í Kaldárbotna samkvæmt samningi við Hafnarfjarðarbæ.

Til að byrja með verður tappað á í  310 ml flöskum en gert er ráð fyrir að bæta tveimur nýjum línum við í febrúar næstkomandi.

Glacial Water Ltd. mun einnig framleiða sitt eigið vatn undir vörumerkinu Foss og er stefnt að útflutningi þess á næsta ári. Félagið er í eigu íslenskra fjárfesta og framkvæmdastjóri er Atli Bjarnason.

Vatn félagsins verður í sumum tilfellum með náttúrulegum bragðefnum.