Glæpagengi hafa að undanförnu fært sér í nyt skort á ýmsum heilbrigðisvarningi vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. Framleiðendur víða um heim hafa ekki haft undan að framleiða spritt og andlitsgrímur.

Spítalar á Ítalíu og í Japan, Frakklandi, Spáni og víðar hafa greint frá því að andlitsgrímur og handspritt hafi horfið. Yfirvöld í Tævan gerðu 70 þúsund andlitsgrímur upptækar sem reynt var að smygla úr landinu í fiskiskipi. Sömu sögu er að segja í Úkraínu þar sem reynt var að fara með 3.650 grímur yfir landamærin til Rúmeníu. WSJ greinir frá.

Yfirvöld víða um heim, meðal annars í Bandaríkjunum hafa upplýst um svik þar sem fólk er platað til að greiða fyrir ýmsan heilbrigðisvarning sem ekki er til á lager sem. Þá hafa svikahrappar þóst vera heilbrigðisstarfsmenn í von um að fá uppgefnar fjárhagsupplýsingar einstaklinga.

Bandaríska verðbréfaeftirlitið hefur varða við svokallaðri  „pump & dump“ svikabrellu. Bíræfnir þrjótar kaupi hlutabréf í litlum skráðum fyrirtækjum tengd heilbrigðisgeiranum. Þeir auglýsa svo á netinu að umrætt fyrirtæki geti stöðvað útbreiðslu kórónuveirunnar. Með því móti hækki hlutabréf félaganna í hæstu hæðir og svikahrapparnir selja þá bréf sín áður en í ljós kemur að ekkert var hæft í fullyrðingunum.