Glæsiíbúð þeirra Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Ingibjargar Pálmadóttur við 50 Gramercy Park North á Manhattan í New York hefur staðið auð um nokkurt skeið og er lögð áhersla á að selja hana. Íbúðin var leigð út til skamms tíma en þar er nú enginn. Gamli Landsbankinn fjármagnaði íbúðakaupin á sínum tíma. Þetta er ein dýrasta húseignin í New York.

Jón Ásgeir keypti upphaflega íbúð á 16. hæð í húsinu fyrir 10 milljón Bandaríkjadali í byrjun árs 2007 en seinna þakíbúð í sama húsi á 14 milljónir dala og sameinaði þær. Heildarverðið samkvæmt þessu nemur þremur milljörðum íslenskra króna. Annar eins verðmiði á íbúð hafði sést á svæðinu þegar Jón Ásgeir tók upp veskið.

Þegar best lét var ekki um neina smáskonsu að ræða þegar íbúðirnar höfðu verið sameinaðar: Um 700 fermetra með tæplega 70 fermetra svölum á 16. hæð og tveimur svölum á 18. hæð.

Kjúklingavængir og Ikea-innrétting

Íbúðin undir þakíbúðinni var um tíma leigð út. Leigjandinn var allt annað en sáttur. Kvartaði hann út af ljótri og ódýrri Ikea-innréttingu í eldhúsinu og auk þess sem kjúklingavængjum hafði verið hent fram að sölum þakíbúðarinnar niður á svalir íbúðarinnar sem leigð var út. Leigjandinn hótaði að kæra málið en féll síðan frá því.

Slitastjórn gekk að veðum í fyrra

Ingibjörg Pálmadóttir og Jón Ásgeir Jóhannesson
Ingibjörg Pálmadóttir og Jón Ásgeir Jóhannesson
© Aðrir ljósmyndarar (VB MYND)

Jón Ásgeir sagði í varnargrein sinni fyrir dómstóli í New York þegar hann ásamt öðrum stjórnarmönnum Glitnis var stefnt af hálfu slitastjórnar Glitnis í september árið 2010 að hann hafi aldrei átt meira en 1% hlut í íbúðunum á móti konu sinni. Í raun hafi verið um að ræða þrjár íbúðir. Ingibjörg hafi átt tvær íbúðir sem voru nr. 16 og 17. Samkvæmt greininni hétu íbúðirnar eftir kaup þeirra hjóna Íbúð 16A annars vegar og íbúðir 17A og 18A hins vegar sem sameinaðar höfðu verið í eina þakíbúð.

Í greininni segir hann Ingibjörgu hafa skilað tveimur íbúðum til Landsbankans eftir samkomulag við Landsbankann. Í fyrstu hafði reyndar verið gefið út að íbúðirnar hafi verið seldar. Skilanefnd Landsbankans leysti síðan þriðju íbúðina til sín í fyrravor og er hún nú í eigu dótturfélags Landsbankans.

Samkvæmt upplýsingum frá slitastjórn Landsbankans er fasteignasala í New York með íbúðina í sölumeðferð. Um sé að ræða dýra eign sem megi búast við að taki tíma að selja.