Sögum um umfang og velgengni styttingar vinnuvikunnar hér á landi í erlendum fjölmiðlum var um margt ofsagt í síðustu viku. Yfirfærð merking fjögurra daga vinnuviku í Bretlandi og oftúlkun niðurstaðna tilraunaverkefnis á styttingu vinnuvikunnar eru meðal ástæðna.

Sex af hverjum sjö sagðir vinna fjögurra daga vinnuviku
Margir erlendir fjölmiðlar sögðu frá íslenskri tilraun á styttingu vinnuvikunnar, og þeirra útbreiddu kjarasamningsákvæða þess efnis sem fylgdu í kjölfarið. Í fyrirsögn fréttar BBC var tilraunin sögð hafa gengið framar björtustu vonum.

Fréttirnar tala allar um fjögurra daga vinnuviku, og í frétt CNBC um málið segir að 85% íslenskra launþega hafi val um að vinna aðeins fjóra daga í viku, sem eins og lesendur eflaust vita er ekki fyllilega sannleikanum samkvæmt.

Í flestum öðrum fréttum er þó réttilega greint frá því að það hlutfall (reyndar 86% í öllum öðrum fréttum) hafi fengið einhverja styttingu úr 40 tímum í kjarasamningum á síðustu árum.

„Fjögurra daga vinnuvika“ ekki bókstafleg merking
Miðillinn Wired er einna gagnrýnastur á niðurstöðurnar, en fjallar jafnframt með ítarlegri hætti um málið en flestir. Í umfjöllun hans er vikið að því að 86% talan sé mikil einföldun, enda hafi margar stéttir aðeins fengið styttingu upp á 13 mínútur á dag eða jafnvel aðeins 35 mínútur á viku. Þar er haft eftir Guðmundi Haraldssyni, einum skýrsluhöfundanna, að hugmyndin um fjögurra daga vinnuviku sé ekki eins vinsæl á Íslandi og í Bretlandi.

Í samtali við Viðskiptablaðið segir Guðmundur ákveðins misskilnings gæta vegna þess hvernig Bretar noti hugtakið fjögurra daga vinnuvika, sem sé notað til að vísa til styttingar vinnuvikunnar almennt, jafnvel þótt hún feli ekki í sér styttingu úr fimm dögum í fjóra, eða fimmtungsstyttingu í annarri útfærslu. „Því er hvergi haldið fram í skýrslunni að þetta hafi snúist um fjögurra daga vinnuviku eða eitthvað slíkt.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .