Icelandair hefur sett upp flugáætlun sína fyrir næsta tvo sólarhringa og miðar hún við áframhaldandi lokun Keflavíkurflugvallar.

Í tilkynningu frá Icelandair kemur fram að um helgina, laugardaginn 24. apríl og sunnudaginn 25. apríl verður flugvöllurinn í Glasgow því miðstöð millilandaflugs Icelandair.

Uppfært kl. 21.30 - Icelandair gerir nú ráð fyrir þriðja deginum við lokum Keflavíkurflugvallar, þ.e. mánudeginum 26. apríl.

Flugvélar Icelandair fljúga þaðan til og frá New York og Boston í Bandaríkjunum og til og frá Kaupmannahöfn, Osló, Amsterdam og London í Evrópu. Tvisvar á dag er síðan flogið með farþega milli Glasgow og Akureyrar.  Því má segja að þeir sem fara til og frá Íslandi með Icelandair um helgina muni millilenda í Glasgow.

Farþegar eru hvattir til að fylgjast vel með því hvernig flugi Icelandair til og frá landinu verður háttað því nauðsynlegt getur reynst að gera breytingar með skömmum fyrirvara.

„Icelandair hefur undanfarna daga unnið að viðbúnaðaráætlun ef til þess kæmi að Keflavíkurflugvelli yrði lokað vegna öskufallsins frá eldgosinu í Eyjafjallajökli,“ segir í tilkynningunni.

„Í undirbúningunum hefur verið lögð áhersla á að halda starfsemi félagsins gangandi, halda opnum flugsamgöngum milli Íslands og umheimsins og veita viðskiptavinum þjónustu. Áhafnir, tæknimenn, stjórnendur og þjónustufulltrúar eru komnir til Glasgow og munu vera þar starfandi eins lengi og þörf krefur.“