Í gærkvöldi var greint frá því að Glazer-fjölskyldan, aðaleigandi Manchester United, væri að íhuga að selja enska knattspyrnufélagið. Samkvæmt heimildum The Times sækist Glazer-fjölskyldan 6-8 milljarða punda söluverði, eða sem nemur á bilinu 1.010-1.350 milljörðum króna.

Heimildarmenn segja að fjölskyldan vilji fordæmalausa upphæð fyrir Man Utd vegna hins gríðarstóra stuðningsmannahóps knattspyrnufélagsins.

Manchester Untied er metið á 4,6 milljarða dala af Forbes, sem er talsvert yfir 2,5 milljarða dala markaðsvirði félagsins, sem hækkaði um 15% eftir að Sky News greindi frá áformum fjölskyldunnar í gær.

Í yfirlýsingu sem fjölskyldan sendi frá sér í gærkvöldi sagðist hún horfa til þess að fá inn nýja fjárfestingu í félagið, annað hvort með sölu á hluta af félaginu eða selja það í heild sinni.

Bandaríski bankinn Raine Group, sem aðstoðaði Chelsea við að finna nýjan eiganda fyrr í ár, hefur verið ráðinn ráðgjafi Man Utd í ferlinu. Þá mun bankinn Rothschild and Co vera Glazer-fjölskyldunni innan handa í ferlinu.

Ólíkt Roman Abramovich, sem neyddist til að selja Chelsea á skömmum tíma eftir innrás Rússa í Úkraínu, er Glazer-fjölskyldan í engum flýti að selja Man Utd.

Glazer-fjölskyldan eignaðist Manchester United árið 2005 fyrir 790 milljónir punda. Árið 2012 seldi fjölskyldan 10% af hlut sínum með skráningu Man Utd á bandaríska hlutabréfamarkaðinn.