Við Íslendingar höfum gaman af því að fylgjast með því sem drífur á daga konungsfólks í Evrópu. Kóngafjölskyldurnar eiga misjafnlega erfitt ár að baki. Sumar þeirra upplifðu mikla gleði. Það á til dæmis við um Vilhjálm prins í Bretlandi og Katrínu eiginkonu hans. Það á einnig við um sænsku konungsfjölskylduna. Hjá öðrum, einkum hollensku konungsfjölskyldunni og þeirri spænsku, var árið erfiðara.

Svíþjóð - Konungur fagnar krýningarafmæli
Karl Gústav, konungur Svía, fagnaði fjörutíu ára krýningarafmæli í september. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, og Dorrit Moussaieff, eiginkona hans, voru bæði viðstödd ásamt þjóðarleiðtogum annarra Norðurlanda. Karl Gústav var 27 ára þegar hann tók við konungstign eftir andlát afa síns, 15. september árið 1973.

Bretland – Nýr prins er fæddur
Breska konungshirðin staðfesti snemma í desember á síðasta ári að hertogahjónin af Cambridge, þau Katrín Middleton og Vilhjálmur prins, ættu von á barni. Meðgangan var Katrínu erfið fyrstu vikurnar og þurfti hún meðal annars að leggjast inn á sjúkrahús vegna mikillar ógleði. Hinn 22. júlí ól Katrín svo son við mikinn fögnuð Breta. Herma heimildir að hún hafi meðal annars hlustað á íslensku hljómsveitina Of Monsters and Men í fæðingunni. Tveimur dögum síðar var tilkynnt að prinsinn hefði fengið nafnið Georg Alexander Loðvík. Prins Georg er þriðji ríkisarfinn í röðinni, á eftir föður sínum og afa.

Holland - Hollenskur prins lét lífið
Hollenski prinsinn Johan Friso lést 12. ágúst. Hann var 44 ára að aldri. Friso var meðvitundarlaus í átján mánuði eftir að hann lenti í snjóflóði á skíðum í Austurríki. Talið var að Friso hefði orðið fyrir súrefnisskorti þegar hann lenti í flóðinu og hjarta hans hafi stöðvast í 50 mínútur. Strax eftir slysið voru taldar litlar sem engar líkur á að hann myndi ná bata.