Enginn talar lengur um yfirvofandi þjóðargjaldþrot Íslendinga og landið er ekki lengur dregið í dilk með Grikkjum og fleiri vandræðabörnum heimshagkerfisins. Þetta segir Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag þar sem hann fer einnig yfir árangur ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum.

Halli af rekstri ríkissjóðs var 216 milljarðar króna árið 2008, 140 milljarðar árið 2009, 123 milljarðar árið 2010 og stefnir í að hann verði 43 milljarðar á yfirstandandi ári og fari niður fyrir 18 milljarða árið 2012. Þá er gert ráð fyrir að frumjöfnuður ríkissjóðs verði jákvæður um 40 milljarða á næsta ári.

„Gleði vinnumarkaðsforkólfanna, Villa og Gylfa, var furðu hófstillt hvað þennan árangur varðar. Raunar nefna þeir ekki árangurinn heldur gagnrýna þeir frumvarpið fyrir þær aðgerðir sem þar eru boðaðar. Skyldi maður þó ætla að þeim væri ljóst mikilvægi þess að hin opinberu fjármál verði sem fyrst sjálfbær. Ekki hefur þetta gerst af sjálfu sér.

Ríkisstjórn og meirihluti hennar á Alþingi hafa ein og tiltölulega óstudd þurft að axla pólitískar óvinsældir og bera ábyrgð á erfiðum en jafnframt óumflýjanlegum aðgerðum til að gera þetta mögulegt. Henni hefur tekist að snúa við spádómum um þjóðargjaldþrot Íslands sem margir töldu óumflýjanlegt. En spyrja má hver staðan væri ef Samtök atvinnulífsins hefðu ráðið för í aðgerðum á tekjuhlið og Alþýðusambandið á niðurskurðarhlið. Auðvitað hefur maður skilning á því að hagsmunaaðilar sækja sína hlið mála af festu en SA og ASÍ verða jafnframt að gera sér grein fyrir því að ríkisstjórnin þarf að taka tillit til þessarar ólíku sjónarmiða og ná fram lýðræðislegri niðurstöðu milli allra þeirra ólíku hagsmuna sem takast á. Og í ljósi þess árangurs sem náðst hefur í ríkisfjármálum virðist það hafa tekist hvað sem gagnrýni aðila vinnumarkaðarins líður,“ segir Steingrímur í grein sinni.