Davíð Torfi Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslandshótela, segir að viðbrögð landsmanna við sumartilboðum hótelkeðjunnar hafa verið mjög góð. Nokkur þúsund gistinætur hafa verið seldar í sumar en Davíð tók þó fram að hótelin höfðu selt um 250 þúsund gistinætur á sama tíma í fyrra.

„Við erum bara að kroppa í örlítið prósent af því sem væri hér í eðlilegu árferði,“ sagði Davíð.

Íslandshótel hafa brugðist við fækkun ferðamanna vegna faraldursins með því bjóða nokkra tilboðspakka fyrir sumarið. Vinsælasta tilboðið eru 10 gistinætur á einu eða fleiri hótelum á 99.000 krónur. Hótelin í boði eru Grand Hótel Reykjavík og Fosshótel Reykholt, Stykkishólmur, Vestfirðir, Húsavík, Austfirðir og Jökulsárlón. Af 17 hótelum keðjunnar hefur 10 verið lokað tímabundið vegna efnahagsástandsins.

Davíð tekur fram að þetta séu mjög lág verð fyrir hótelin. „Við vitum alveg að hótelin okkar verða ekki rekin með hagnaði í sumar. Það eru alveg hreinar línur.“ Aðspurður um auknar fyrirspurnir erlendis frá vegna afléttingu ferðatakmarkanna, þá segir Davíð að almennar fyrirspurnir hafi aukist aðeins.

„Við sjáum að það eru komnar bókanir inn í haustið og veturinn en sumarið er nú þannig að jafnvel þótt við opnum þessi landamæri þá held ég að við þurfum ekkert að hleypa inn í hollum hjá okkur.“