Íslensk getspá, sem heldur úti Lottó, Víkingalottóinu og Euro Jackpot, hefur ráðið Halldóru Maríu Einarsdóttur sem nýjan markaðsstjóra. Hún hefur starfað lengi í fjölmiðla- og auglýsingageiranum og verið báðum megin við myndavélarnar.

„Ég hef unnið mikið með fráfarandi markaðsstjóra í gegnum starf mitt hjá EnnEmm, þar sem ég hef séð um birtingarráðgjöf fyrir Íslenska getspá,“ segir Halldóra sem hlakkar til að prófa að vera hinum megin við borðið.

„Markaðsstjórinn fær líka það skemmtilega hlutverk að setjast niður með nýjum vinningshöfum, sem eru eflaust mjög gleðilegir fundir. Síðan verður margt sem ég á eftir að læra en almennt snýst þetta um að bera ábyrgð á hvernig ásýnd fyrirtækisins er í auglýsingamálum.“

Áður en Halldóra hóf störf í fjölmiðlaheiminum vann hún í tvö ár við útreikning iðgjalda hjá lífeyrissjóði en ákvað einn daginn að söðla um.

„Ég labbaði inn hjá DV í Þverholtinu og bað um að fá að tala við sölustjórann og sagðist ætla að sækja um vinnu hjá honum. Páll Þorsteinsson sem þá var sölustjóri nánast réð mig á staðnum,“ segir Halldóra en henni bauðst síðar í gegnum auglýsingasöluna að vera fyrir framan myndavélina sem umsjónarmaður þáttarins Mótor á Skjá einum.

„Síðan fer ég yfir á 365, fyrst í auglýsingasölu, en síðan fór ég að þjálfa mig í að vera bak við myndavélina í myndstjórninni. Þannig fer ég að starfa í fréttunum, Ísland í bítið, NFS og fleiri slíkum skemmtilegum verkefnum. Þaðan fer ég svo aftur í að vera á Skjánum í ýmiss konar beinum útsendingum þangað til mér býðst að verða birtingarstjóri á Skjá einum.“

Halldóra á einn fimmtán ára gamlan strák, en í frítíma sínum nýtur hún þess helst að fara á knattspyrnuleiki hjá Breiðablik og skella sér í sveitasæluna með fjölskyldunni.

„Ég hef mikinn áhuga á fótbolta þó ég hafi aldrei æft hann sjálf, en það kemur kannski til af því að ég er fæddur og uppalinn Kópavogsbúi. Reyndar byrjaði ég fyrst að fara á völlinn þegar ég var stelpuskjáta að passa fyrir Adda Grétars og konu hans, þegar hann spilaði með Breiðabliki. Það var svo hún gæti fylgst aðeins meira með leiknum í stað þess að þurfa að vera alltaf að hlaupa á eftir stráknum,“ segir Halldóra en sonur hennar sjálfrar er samt sem áður ekki mikið í fótbolta.

„Hann er á kafi í fimleikum, en kemur á leikinn með mér þegar hann er ekki sjálfur á fimleikaæfingu.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð , aðrir geta skráð sig í Áskrift .