Fjárfestar austan Atlantshafsins, svo sem í Evrópu og Asíu, virðast hafa tekið ágætlega í fréttir þess efnis að Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu, ætli að segja af sér. Helstu hlutabréfavísitölur hafa hækkað. Hlut að máli á jafnframt verðbólguhjöðnun í Kína. Verðbólga þar í landi mældist 5,5% í október og hafa slíkar tölur ekki sést í þrjú ár.

Lántökukostnaður Ítala hækkaði enn frekar í dag og leitaði í nýjan hæðir. Álag Ítala á 10 ára ríkisskuldabréf stendur nú í 6,77% og hefur ekki verið hærri síðan Ítalir tóku upp evruna fyrir tólf árum.

Bloomberg-fréttastofan hefur eftir fjármálasérfræðingum að þótt afsögn Berlusconis sé á vissan hátt jákvæð þá kann sá vermir að vera skammvinnur; skuldir hvíli enn þungt á mörgum evruríkjum, þar á meðal Ítalíu.